Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 208 . mál.


Ed.

332. Frumvarp til laga



um breytingar á erfðalögum, nr. 8 14. mars 1962, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna hljóðar svo:
    Ef arfleifandi á enga niðja á lífi tekur maki allan arf.

2. gr.

    7. gr. laganna hljóðar svo:
    Eftir lát annars hjóna á hitt rétt á að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja nema hið látna hafi mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram.

3. gr.

    8. gr. laganna hljóðar svo:
    Heimilt er því hjóna, sem lengur lifir, að sitja í óskiptu búi með ófjárráða niðjum látins maka síns, sem ekki eru niðjar hans, ef sá eða þeir sem fara með forsjá eða lögráð hinna ófjárráða niðja veita samþykki sitt til þess, enda hafi hið látna ekki mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ef það hjóna, sem lengur lifir, fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpniðja sinna á það þó rétt á setu í óskiptu búi eins og mælt er fyrir um í 7. gr.
    Því hjóna, sem lengur lifir, er heimilt að sitja í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum sínum ef þeir veita samþykki sitt til þess.
    Það hjóna, sem lengur lifir, á rétt á setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða, án þess að aflað sé samþykkis skv. 1. eða 2. mgr., ef hið látna hefur mælt fyrir um þann rétt í erfðaskrá.

4. gr.

    9. gr. laganna hljóðar svo:
    Því hjóna, sem lengur lifir, verður ekki veitt leyfi til að sitja í óskiptu búi ef bú þess er til gjaldþrotaskipta eða í ljós kemur að eignir þess hrökkva ekki fyrir skuldum. Sama er ef því verður ekki treyst til að hafa forræði bús vegna vanhirðu um fjármál sín.
    Ef það hjóna, sem lengur lifir, er svipt lögræði verður því ekki veitt leyfi til að sitja í óskiptu búi nema með samþykki yfirlögráðanda.

5. gr.

    10. gr. laganna hljóðar svo:
    Sá sem óskar setu í óskiptu búi skal sem fyrst eftir lát maka síns sækja um leyfi til þess hjá sýslumanni í því umdæmi þar sem búskipti eftir hinn látna fara fram.
    Í umsókn um leyfi til að sitja í óskiptu búi skal greina nöfn erfingja, kennitölur þeirra og dvalarstaði. Einnig skal yfirlit yfir eignir og skuldir beggja hjóna koma fram í umsókn eða sem fylgigagn með henni. Ef heimild til setu í óskiptu búi er háð samþykki annarra, sbr. 1. eða 2. mgr. 8. gr., skulu yfirlýsingar um samþykki vera ritaðar á umsókn eða fylgja henni. Ef réttur til setu í óskiptu búi byggist á erfðaskrá hins látna, sbr. 3. mgr. 8. gr., skal eintak hennar fylgja umsókn.
    Ef sýslumaður telur ástæðu til að ætla að ákvæði 9. gr. geti átt við um hagi þess sem sækir um leyfi til að sitja í óskiptu búi er honum heimilt að skipa ófjárráða erfingjum, sem umsækjandinn er forsjármaður eða lögráðamaður fyrir, sérstakan lögráðamann til að gæta hagsmuna þeirra.
    Telji sýslumaður umsækjanda fullnægja skilyrðum til að hljóta leyfi til að sitja í óskiptu búi skal hann veita leyfið og láta umsækjandanum í té skilríki fyrir því.

6. gr.

    11. gr. laganna hljóðar svo:
    Til óskipts bús teljast hjúskapareignir beggja hjóna og séreign sem samkvæmt ákvæðum laga eða kaupmála á að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu. Sjálfsaflafé og annað verðmæti, sem sá eignast sem situr í óskiptu búi, rennur til búsins nema það eigi að lögum að falla til séreignar hans.
    Arfur eða gjöf, sem langlífara maka hlotnast, rennur þó ekki inn í óskipt bú ef hann lýsir því fyrir sýslumanni innan tveggja mánaða frá því hann fékk vitneskju um arf eða gjöf að verðmæti þessi skuli ekki renna inn í óskipta búið. Verða þau þá séreign langlífara maka. Ber að halda þeim og annarri séreign aðgreindum frá eignum óskipta búsins.

7. gr.

    12. gr. laganna hljóðar svo:
    Maki, sem situr í óskiptu búi, hefur í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins. Ber hann ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða.

8. gr.

    14. gr. laganna hljóðar svo:
    Ef maki hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi með ófjárráða stjúpniðjum sínum á grundvelli 1. mgr. 8. gr., er honum skylt að skipta með sér og stjúpniðja, ef hann krefst skipta sér til handa innan þriggja mánaða frá því að hann öðlast fjárræði. Komi ekki krafa fram innan þess tíma getur fjárráða stjúpniðji, sem svo stendur á fyrir, krafist skipta sér til handa með sama hætti og segir í 2. mgr.
    Ef fjárráða stjúpniðji hefur samþykkt setu í óskiptu búi, sbr. 2. mgr. 8. gr., getur hann krafist skipta sér til handa með eins árs fyrirvara.

9. gr.

    Orðin „fyrir skiptaráðanda,„ í 1. mgr. 15. gr. laganna falla niður.

10. gr.

    16. gr. laganna hljóðar svo:
    Nú andast maður sem á erfðahlut inni í óskiptu búi og geta þá erfingjar hans aðeins krafist skipta sér til handa að því leyti sem hinum látna hefði verið það heimilt.
    Skuldheimtumenn erfingja geta ekki krafist búskipta.

11. gr.


    2. tölul. 2. mgr. 26. gr. laganna hljóðar svo:
    2. Ef það krefst skipta eftir 27. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972.

12. gr.

    31. gr. laganna hljóðar svo:
    Verðmæti, sem 29. og 30. gr. taka til, skal virða erfingja til frádráttar eftir gangverði þess þegar hann veitti því viðtöku, framreiknuðu til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað við arfskipti. Hafi gangverð verðmæta lækkað til muna, frá því að fyrirframgreiðsla átti sér stað, vegna atvika sem erfingjanum verður ekki um kennt skal þó ekki draga meira frá en sanngjarnt er svo að jöfnuður fáist með erfingjum.

13. gr.

    Í stað orðsins „skiptaráðanda“ í 1. málsl. 47. gr. laganna kemur „sýslumann“.

14. gr.

    1. mgr. 51. gr. laganna hljóðar svo:
    Um varðveislu kvaðaarfs fer sem um fé ólögráða manna, sbr. 39. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

16. gr.

    Nýtt ákvæði, 63. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    „Ákvæði 3., 7.–10., 14., 16. og 31. gr., eins og þeim er breytt með lögum nr. 29/1985, gilda ekki um lögerfðarétt, um setu í óskiptu búi eða um uppgjör fyrir fram greidds arfs eftir menn sem látnir eru fyrir gildistöku laganna.
    Meðan lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972, eru enn í gildi skulu þeir menn, sem eru skiptaráðendur samkvæmt fyrirmælum þeirra laga, gegna því hlutverki sem sýslumönnum er falið með lögum þessum.“
    Við birtingu laga þessara skal númeri því, sem þau hljóta, skotið inn í þar til ætlaða eyðu í hinu nýja ákvæði 1. mgr. 63. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að tilhlutan dómsmálaráðherra hefur farið fram athugun á því hvort og þá að hverju leyti þörf er á að endurskoða ákvæði erfðalaga, nr. 8 14. mars 1962, eins og þeim var breytt með lögum nr. 29 4. júní 1985. Niðurstöður þeirrar athugunar urðu þær að ástæðulaust væri að ráðast í heildarendurskoðun laganna, en rétt væri hins vegar að leggja til breytingar á einstökum ákvæðum þeirra sem einkum yrðu fólgnar í eftirfarandi:
1.     Að breyta núgildandi reglu 1. mgr. 3. gr. erfðalaga sem kveður á um að foreldrar látins manns taki arf á móti maka hans ef hann lætur enga niðja eftir sig í það horf að maki verði einkalögerfingi hins látna við þær aðstæður.
2.     Að rýmka verulega heimildir langlífara maka til setu í óskiptu búi. Nánar tiltekið yrði þetta annars vegar gert með því að veita langlífara maka rétt til setu í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum sínum og hins látna, án þess að afla samþykkis fjárráða niðja eins og nú þarf skv. 3. mgr. 7. gr. erfðalaga eða að þurfa ella að styðja þann rétt við erfðaskrárfyrirmæli hins látna eins og mælt er fyrir um í 4. mgr. 9. gr. erfðalaga, sbr. lög nr. 29/1985. Hins vegar yrði staða langlífara maka bætt í þessum efnum gagnvart niðjum hins skammlífara, sem ekki eru niðjar hins langlífara, þannig að þeir yrðu bundnir af erfðaskrárákvörðun hins skammlífara um rétt hins langlífara til setu í óskiptu búi. Samhliða þessu yrði skertur réttur niðja hins skammlífara til að krefjast skipta sér til handa skv. 14. gr. erfðalaga eftir að langlífari maki hefur sest í óskipt bú.
3.     Að breyta reglum 31. gr. erfðalaga, sem kveða á um frádrátt fyrirframgreiðslu arfs við endanlegt uppgjör, þannig að ótvírætt verði að erfingi, sem hlotið hefur fyrirframgreiðslu umfram aðra erfingja, njóti ekki hagnaðar af verðlagsbreytingum sem orðið hafa á tímabilinu frá því fyrirframgreiðsla átti sér stað fram að endanlegu uppgjöri arfsins að arfleifanda látnum.
4.     Að breyta reglum erfðalaga til samræmis við fyrirmæli frumvarps til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, þannig að sýslumenn samkvæmt frumvarpinu gegni því hlutverki sem erfðalögin fela skiptaráðendum.
5.     Að breyta tilvísunum í erfðalögum til annarra laga sem nú eru fallin úr gildi og setja þess í stað tilvísanir til núgildandi reglna.
    Frumvarp þetta er samið í ljósi þessara tillagna, en að auki felur það í sér ráðagerðir um aðrar minni háttar breytingar á ákvæðum erfðalaga um óskipt bú en þær sem beinlínis er þörf vegna þess sem áður greinir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Regla 1. mgr. 3. gr. erfðalaga mælir fyrir um lögerfðir, er látinn maður lætur bæði eftir sig maka og foreldri á lífi, en ekki niðja. Við þessar aðstæður tekur maki 2 / 3 hluta arfs, en foreldri, ef annað eða bæði eru á lífi, 1 / 3 hluta. Frá þessari tilhögun má víkja með erfðaskrá þannig að maki geti orðið einkaerfingi.
    Frumvarp til erfðalaga, sem varð að lögum nr. 8/1962, var að verulegu leyti árangur af samnorrænu löggjafarsamstarfi sem stóð yfir frá árinu 1955. Það samstarf leiddi til talsverðrar samræmingar löggjafar um erfðir á Norðurlöndunum. Þótt reglur um ýmis atriði hafi eftir sem áður orðið mismunandi í einstökum löndum urðu íslensku lögin efnislega líkust þeim dönsku. Munur varð þó m.a. á íslenskri og danskri löggjöf varðandi þá aðstöðu, sem 1. mgr. 3. gr. erfðalaga tekur til, því samkvæmt dönskum erfðalögum er maki einkalögerfingi þegar svo stendur á. Sérstaða íslensku erfðalaganna var sérstaklega rökstudd í athugasemdum við 1. mgr. 3. gr. frumvarps að þeim með eftirfarandi ummælum:
    „Á sameiginlegum fundi erfðalaganefnda Norðurlanda ákváðu þátttakendur, að íslenzku nefndarmönnunum undanskildum, að gera erfðalagafrumvörpin þannig úr garði að maki taki allan arf þegar hinn látni á engan niðja á lífi, en af því leiðir að foreldri arfleifanda tekur engan arf ef maka er til að dreifa. Þetta töldu íslenzku nefndarmennirnir of róttæka breytingu á gildandi rétti. Sanngirni virðist mæla með því að foreldrar taki nokkurn arf eftir barn sitt, þó að maki þess lifi. Kemur þetta einkum til greina þegar um aldurhnigna og efnalitla foreldra er að ræða, en hið látna barn þeirra hefur verið í góðum efnum og styrkt þau í ellinni. Ísland hefur og þá sérstöðu að samkvæmt 6. gr. framfærslulaga nr. 80/1947, er börnum skylt að framfæra foreldra sína ef þau eru til þess fær, en í lögum annarra Norðurlandaþjóða eru ekki ákvæði um slíka framfærsluskyldu. Hafa því semjendur frumvarps þessa horfið að því ráði að veita foreldrum erfðarétt þó að maki lifi, en rýmka hins vegar erfðahluta makans, svo sem gert er í 1. mgr. 3. gr.“
    Frá því ívitnuð orð voru rituð hafa orðið verulegar breytingar á aðstæðum manna, en framfærsluskylda með foreldrum hvílir þó enn á börnum hér á landi.
Aðbúnaður aldraðra hefur tekið miklum framförum bæði vegna bættra almannatrygginga og með stórauknum lífeyrisréttindum. Efnahagur manna hefur einnig almennt tekið breytingum, þannig að minni líkindi eru væntanlega nú fyrir að foreldrar þarfnist fjárhagslegrar aðstoðar barna sinna. Reynslan hefur sýnt að barnlaus hjón kjósa gjarnan að víkja frá reglu 1. mgr. 3. gr. erfðalaga með erfðaskrá. Þess eru og dæmi, þegar hjón hafa ekki gert slíka erfðaskrá, að regla 1. mgr. 3. gr. hafi reynst verulega ósanngjörn gagnvart langlífara maka, sem hefur jafnvel orðið að skipta fábrotnum eignum með efnuðum foreldrum skammlífara makans. Síðast en ekki síst ber að hafa í huga að reglur laga nr. 8/1962 mörkuðu þá braut að bæta mjög stöðu langlífara maka frá því sem gilti eftir eldri erfðalögum, en síðari þróun löggjafar hefur eindregið beinst að því að bæta þá stöðu enn frekar, svo sem séð verður af breytingu erfðalaga með lögum nr. 29/1985.
    Að framangreindum atriðum virtum þykir eðlilegt að leggja hér til þá breytingu á reglu 1. mgr. 3. gr. að langlífari maki verði einkalögerfingi hins skammlífara ef sá síðarnefndi lætur ekki eftir sig niðja. Þá breytingu verður að telja falla betur að ríkjandi viðhorfum en núgildandi reglu, enda augljóst að félagsleg jafnt sem fjárhagsleg tengsl hljóta að vera ólíkt nánari milli hjóna, heldur en milli annars hjóna og foreldra þess. Ef sú skipan, sem hér er lögð til, þætti ekki hæfa í einstökum tilvikum, stæði öðru hjóna eða þeim báðum að sjálfsögðu sá kostur til boða að veita foreldrum sínum hlutdeild í arfi með erfðaskrá, allt að 1 / 3 hluta eigna, sbr. 35. gr. erfðalaga.

Um 2. gr.


    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til verulegar breytingar á núgildandi reglum 7. gr. og 4. mgr. 9. gr. erfðalaga um heimildir langlífara maka til að fá leyfi til setu í óskiptu búi. Núgildandi fyrirmæli 7. gr. taka bæði til þessarar heimildar langlífara maka gagnvart sameiginlegum niðjum sínum og hins skammlífara og gagnvart stjúpniðjum sínum. Þar sem reglur frumvarpsins ráðgera að heimildir langlífara maka verði nokkuð ólíkar í þessum efnum, eftir því hvort um sameiginlega niðja er að ræða eða stjúpniðja hans, þykir eðlilegt að aðgreina fyrirmæli um þær á þann veg að í 7. gr. laganna (2. gr. frumvarpsins) komi fram reglur um stöðu langlífara maka gagnvart sameiginlegum niðjum, en í 8. gr. laganna (3. gr. frumvarpsins) verði sérstaklega fjallað um stöðu hins langlífara gagnvart stjúpniðjum.
    Núgildandi reglur 1. og 3. mgr. 7. gr. og 4. mgr. 9. gr. erfðalaga kveða á um mismunandi heimildir langlífara maka til að setjast í óskipt bú með
sameiginlegum niðjum sínum og hins skammlífara, eftir nánari atvikum hverju sinni. Langlífari maki á nú rétt til setu í óskiptu búi með ófjárráða sameiginlegum niðjum, sbr. 1. mgr. 7. gr. erfðalaga, og þarf að jafnaði ekki að afla samþykkis annarra fyrir umsókn um leyfi til þess. Ef sameiginlegir niðjar eru hins vegar fjárráða er langlífari maki almennt háður því að þeir veiti samþykki sitt til setu hans í óskiptu búi, sbr. 3. mgr. 7. gr. erfðalaga. Skammlífari maki getur þó leyst langlífara maka undan því að afla samþykkis sameiginlegra niðja þeirra fyrir setu í óskiptu búi með því að gera erfðaskrá, sem kveður á um rétt hins langlífara í þessum efnum, skv. 4. mgr. 9. gr. erfðalaga, sbr. lög nr. 29/1985.
    Á undanförnum árum hefur nokkur umræða orðið um þá skipan, sem hér hefur verið lýst, einkum í tengslum við lagafrumvörp sem flutt voru á Alþingi og leiddu að lokum til setningar laga nr. 29/1985. Í þeirri umræðu hefur einkum verið bent á veika stöðu langlífara maka gagnvart fjárráða börnum sínum eða fjarlægari afkomendum eftir fráfall skammlífara maka því fram að setningu áðurnefndra laga var hinn langlífari alfarið háður velvilja fjárráða barna sinna um það hvort honum yrði kleift að setjast í óskipt bú. Fjölmargar röksemdir hljóta að mæla gegn reglum sem leiða til slíkrar aðstöðu. Langlífari maki, sem knúinn er til að skipta búi eftir fráfall hins skammlífara, getur þurft að selja íbúðarhúsnæði hjónanna til að standa straum af útborgun arfs eða þurft að ganga á sparifé sem ætlað var til framfærslu í elli. Eignir, sem langlífari makinn kann að þurfa að láta af hendi, hafa iðulega myndast á langri starfsævi hjónanna beggja með sameiginlegu framtaki þeirra, án þess að börn þeirra eða fjarlægari afkomendur hafi átt hlut að öflun eignanna. Með hækkandi meðalaldri manna hafa þær aðstæður einnig orðið æ algengari að skammlífari makinn lifi að sjá börn sín komin vel yfir miðjan aldur og því fær, aldurs síns vegna, um að sjá fyrir sér sjálf. Geta því orðið torfundin þau siðferðislegu eða fjárhagslegu rök sem mæla með almennri reglu þess efnis að fjárráða niðjum hjóna sé í sjálfsvald sett að synja langlífara maka um heimild til setu í óskiptu búi, jafnvel með þeim afleiðingum að högum hans verði verulega raskað.
    Þau atriði, sem hér hefur verið vikið að, komu meðal annarra til skoðunar við setningu laga nr. 29/1985, en með þeim var lögfest ný regla, 4. mgr. 9. gr. erfðalaga, sem eins og áður er nefnt heimilar skammlífara maka að binda með erfðaskrá sameiginlega niðja sína og hins langlífara við ákvörðun um rétt til setu í óskiptu búi. Breyting þessi bætti mjög stöðu langlífara maka og hefur heimildar hinnar nýju reglu verið talsvert neytt. Á hinn bóginn verður
ekki hjá því litið að reynslan sýnir að gerð erfðaskrár getur vaxið mönnum mjög í augum, jafnvel þótt efni hennar sé ekki umfangsmeira en hér þarf til. Veruleg líkindi hljóta einnig að standa til þess að hjónum sé það almennt að skapi að hinu langlífara þeirra gefist kostur á setu í óskiptu búi ef það óskar þess. Má því nánast segja að hægara sé um vik úr því að löggjöf hefur nú viðurkennt tilhögun 4. mgr. 9. gr. erfðalaga að breyta reglum á þann veg að langlífari maki eigi ávallt lögbundinn rétt til setu í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum sínum og hins skammlífara, nema annað hafi verið ákveðið í erfðaskrá hins skammlífara. Megininntak 2. gr. frumvarpsins er einmitt að leiða til slíkra breytinga með nýjum búningi 7. gr. erfðalaga.
    Ef frumvarp þetta verður að lögum, felst í breyttri reglu 7. gr. erfðalaga að langlífari maki á rétt á setu í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum sínum og hins skammlífara án þess að þurfa að afla samþykkis niðjanna án tillits til hvort þeir eru fjárráða eða ófjárráða og án þess að kveðið hafi verið á um þennan rétt í erfðaskrá. Skammlífari makinn gæti þó ávallt útilokað þennan rétt þess langlífara með því að mæla svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram að honum látnum. Með reglu þessari, sem að miklu leyti er hliðstæð reglu danskra erfðalaga, yrði réttur langlífara maka einungis takmarkaður af hæfisskilyrðum fyrir setu í óskiptu búi eins og þau koma fram í 4. gr. frumvarpsins. Langlífari makinn yrði þó, á sama hátt og nú gildir, að sækja um formlegt leyfi til setu í óskiptu búi með þeim hætti sem fjallað er um í 5. gr. frumvarpsins.
    Um réttarstöðu langlífara maka og sameiginlegra niðja hans og hins skammlífara er að öðru leyti rétt að vekja hér athygli á þeim breytingum sem ráðgerðar eru á 14. og 16. gr. erfðalaga með 8. og 10. gr. frumvarpsins. Þær breytingar hefðu í för með sér afnám núgildandi heimilda sameiginlegra niðja til að krefjast greiðslu arfshluta síns úr óskiptu búi annarra en þeirrar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 15. gr. erfðalaga og veitir samerfingjum langlífara maka úrræði ef hann misfer með eignir bús.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til nýjar reglur um heimildir langlífara maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum, þ.e. niðjum skammlífara maka, sem ekki eru jafnframt niðjar hins langlífara. Ef frumvarp þetta verður að lögum verður efni 3. gr. frumvarpsins að 8. gr. erfðalaga, en eins og skýrt er í athugasemdum við 2. gr. er hér farin sú leið að kljúfa reglur núgildandi 7. gr. erfðalaga um heimildir til setu í óskiptu búi í tvær
greinar. Þessi efnisskipan frumvarpsins raskar lítillega greinarnúmerum eins og þau eru nú í erfðalögum þannig að efni núgildandi 8. gr. laganna yrði framvegis í 9. gr. ef frumvarp þetta verður að lögum og efni núgildandi 9. og 10. gr. færist að sama skapi aftur í 10. og 11. gr. Samræmi næst hins vegar aftur milli greinarnúmera núgildandi laga og frumvarpsins með því að 7. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að efni núgildandi 11. og 12. gr. erfðalaga verði steypt saman í nýja 12. gr.
    Reglur núgildandi 2. og 3. mgr. 7. gr. erfðalaga kveða á um heimildir langlífara maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum. Ef stjúpniðjar langlífara makans eru ófjárráða felur 2. mgr. 7. gr. skiptaráðanda að ákveða hvort eftirlifandi maka verði heimiluð seta í óskiptu búi með hliðsjón af því, hvort sú skipan verði talin börnum og maka til hagsbóta. Ef stjúpniðjar eru hins vegar fjárráða er heimild langlífara makans háð samþykki þeirra. Ákvæði 4. mgr. 9. gr. erfðalaga taka ekki til stjúpniðja langlífara maka og getur hinn skammlífari því ekki bundið þá niðja með ákvörðun í erfðaskrá um rétt hins langlífara til setu í óskiptu búi. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins ráðgera talsverðar breytingar frá þessari skipan, sem nú verða skýrðar nánar.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er að finna reglur um heimildir langlífara maka til setu í óskiptu búi með ófjárráða stjúpniðjum sem gilda þó því aðeins að skammlífari maki hafi ekki útilokað setu í óskiptu búi með fyrirmælum í erfðaskrá um að skipti skuli fara fram. Reglur þessar taka jafnt til stjúpniðja sem eru ófjárráða vegna æsku og þeirra sem sviptir hafa verið fjárræði, en þetta veldur því að taka verður jöfnum höndum tillit í orðalagi ákvæðisins til þess að einhver fari með forsjá stjúpniðja sem er ólögráða vegna æsku og lögráð stjúpniðja sem sviptur hefur verið fjárræði. Í 1. mgr. 3. gr. felst í fyrsta lagi tillaga um þá breytingu frá núgildandi lögum, að heimild langlífara maka verði almennt háð því að forsjármenn eða lögráðamenn ófjárráða stjúpniðja samþykki setu í óskiptu búi. Þótt hér sé lagt til að afnema það vald skiptaráðanda, sem regla 2. mgr. 7. gr. erfðalaga felur honum og áður er lýst, er ekki um verulega breytingu að ræða frá því sem tíðkast hefur í framkvæmd. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. erfðalaga hafa í orði kveðnu falið skiptaráðanda að meta hvort það verði til hagsbóta að langlífari maki fái leyfi til setu í óskiptu búi við þessar aðstæður, en sú leið hefur almennt verið farin í þessum efnum að skiptaráðandi leggur fyrir langlífara maka að leita afstöðu forsjármanna eða lögráðamanna ófjárráða stjúpniðja til umsóknar, og hefur sú afstaða að jafnaði ráðið niðurstöðu skiptaráðanda. Þessi framkvæmdarvenja á eflaust rætur að rekja til augljósra vandkvæða á að
skiptaráðandi geti fengið nægilega yfirsýn yfir aðstæður hverju sinni til að leggja sjálfstætt mat á umsókn. Í ljósi þess virðist heppilegra að lögfesta reglu sem samrýmist ríkjandi framkvæmd, en sú tillaga, sem hér er gerð, er svipuð reglu danskra erfðalaga um þetta efni. Í öðru lagi er gerð tillaga um sérreglu í 1. mgr. 3. gr. um þær aðstæður að langlífari maki fari með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpniðja sinna, en samsvarandi regla er ekki í núgildandi lögum. Þegar aðstæður eru þessar er samband langlífara makans við stjúpniðja áþekkt því að um eigin niðja hans væri að ræða. Er því gert ráð fyrir að langlífari maki eigi rétt á setu í óskiptu búi þegar þannig stendur á með sama hætti og þegar um sameiginlega niðja hjóna er að ræða, sbr. ákvæði 2. gr. frumvarpsins um breytingu á 7. gr. erfðalaga. Hér ber þó að gæta að því að umrædd sérregla í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins nær aðeins til réttinda langlífara maka til að fá leyfi til setu í óskiptu búi, en hún takmarkar ekki heimild stjúpniðja til að krefjast skipta sér til handa þegar þeir öðlast fjárræði, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 3. gr. er að finna almenna reglu um heimild langlífara maka til setu í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum sínum. Er hér gert ráð fyrir að heimild makans verði háð samþykki stjúpniðja með sama hætti og nú gildir skv. 3. mgr. 7. gr. erfðalaga. Þarfnast ákvæði þetta því ekki frekari skýringa.
    Í 3. mgr. 3. gr. er að finna tillögu um nýja reglu sem er ætlað að bæta stöðu langlífara maka gagnvart stjúpniðjum. Er hér gert ráð fyrir að skammlífari maki geti veitt hinum langlífara rétt til setu í óskiptu búi með fyrirmælum í erfðaskrá þannig að heimild langlífara maka í þessum efnum verði ekki háð samþykki fjárráða stjúpbarna hans eða forsjármanna ófjárráða stjúpbarna. Hér er um veigamikla breytingu að ræða frá núgildandi reglum, enda nær áþekk heimild í 4. mgr. 9. gr. erfðalaga sem áður segir aðeins til þess að binda sameiginlega niðja hjóna með þessum hætti.
    Röksemdir fyrir að rýmka rétt langlífara maka til setu í óskiptu búi við þessar aðstæður eru um margt hinar sömu og áður hefur verið getið í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins. Þess hefur gætt í talsvert ríkara mæli í framkvæmd að stjúpniðjar standi í vegi fyrir setu langlífara maka í óskiptu búi heldur en sameiginlegir niðjar hjóna. Er og áberandi við þessar aðstæður að hjón hafi leitast við að tryggja stöðu hins langlífara með ýmsum hætti, t.d. með fyrirmælum í erfðaskrá um aukningu erfðahlutar hins langlífara ef hann fær ekki leyfi til setu í óskiptu búi eða með því að gera kaupmála um að eignir verði að einhverju meira eða minna leyti séreignir þess sem horfur eru
á að muni lifa lengur. Ráðstafanir sem þessar ná sjaldan því markmiði að gera hið langlífara eins sett og ef það sæti í óskiptu búi. Í þessum efnum skiptir þó ekki minna máli að staða stjúpniðja hins langlífara er oft til mikilla muna lakari ef einhver áðurnefnd leið hefur verið farin, en orðið hefði með setu hins langlífara í óskiptu búi. Þjónar því sú regla, sem tillaga er gerð um í 3. mgr. 3. gr., að mörgu leyti hagsmunum allra hlutaðeigandi.
    Um skýringu á 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er rétt að taka fram að gert er ráð fyrir að erfðaskrá, sem veitir langlífara maka umræddan rétt, geti hvort sem er verið sameiginleg erfðaskrá beggja hjónanna eða einhliða erfðaskrá þess sem skemur lifir. Efnislega þyrfti erfðaskrá sem þessi ekki að kveða á um annað en rétt langlífara maka til setu í óskiptu búi. Hafi erfðaskrá sem þessi verið gerð þyrfti langlífari maki ekki að leita afstöðu fjárráða stjúpniðja sinna eða forsjármanna ófjárráða stjúpniðja til umsóknar um leyfi til setu í óskiptu búi heldur fengist leyfið á grundvelli erfðaskrár ef umsækjandinn fullnægir hæfisskilyrðum 4. gr. frumvarpsins. Rétt er einnig að vekja athygli á því að ef leyfi yrði fengið til setu í óskiptu búi með þessum hætti, ættu stjúpniðjar þess ekki kost að krefjast skipta eftir reglum 8. gr. frumvarpsins um breytingu á 14. gr. erfðalaga, en þeir ættu sem hingað til rétt á að krefjast skipta vegna meðferðar langlífara maka á eignum búsins skv. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um hæfisskilyrði fyrir setu í óskiptu búi, sem ráðgert er að verði í 9. gr. erfðalaga, ef frumvarpið verður að lögum. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins eru efnislega samhljóða núgildandi fyrirmælum um sama efni í 8. gr. erfðalaga að öðru leyti en því að tillaga er gerð um óverulega breytingu á 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. erfðalaga þar sem nú er mælt fyrir um að hið langlífara hjóna verði ekki veitt leyfi til setu í óskiptu búi, ef því verður ekki treyst til að hafa forræði bús „vegna óreglu þess, ráðdeildarleysis eða vanhirðu um fjármál sín“. Er hér ráðgert að nema brott fyrirmæli um óreglu langlífara maka og ráðdeildarleysi í þessu sambandi, enda þjóna þau tæpast sjálfstæðum tilgangi.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins koma fram fyrirmæli um umsókn langlífara maka um leyfi til setu í óskiptu búi og um veitingu leyfisins. Reglur þessar, sem gert er ráð fyrir að verði framvegis í 10. gr. erfðalaga, eru að miklu leyti
hliðstæðar núgildandi fyrirmælum í 1.–3. mgr. 9. gr. laganna, en nokkrar breytingar eru þó lagðar til, einkum með hliðsjón af framkvæmd í þessu sambandi. Af einstökum breytingum er rétt að vekja athygli á eftirfarandi:
1.     Gert er ráð fyrir að umsókn um leyfi til setu í óskiptu búi verði beint til sýslumanns sem taki afstöðu til hennar sem stjórnvald. Hér er um breytingu að ræða til samræmis við ákvæði frumvarps til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og frumvarps, sem unnið er að á vegum dómsmálaráðherra, til nýrra skiptalaga. Í þessu sambandi skal bent á sérstakt bráðabirgðaákvæði, í 16. gr. frumvarpsins, sem þessu tengist.
2.     Í 9. gr. erfðalaga er tekið svo til orða að langlífari maki, sem óskar eftir setu í óskiptu búi, eigi að „tilkynna“ skiptaráðanda það. Það orðalag að um tilkynningu sé að ræða er um margt villandi, enda er ljóst af öðrum ákvæðum laganna að maki þurfi að sækja um formlegt leyfi til setu í óskiptu búi. Er því í 5. gr. frumvarpsins fjallað um umsókn í þessu sambandi sem er í samræmi við framkvæmd á grundvelli núgildandi lagafyrirmæla.
3.     Nokkuð fyllri reglur koma fram í 5. gr. frumvarpsins en nú er að finna í 9. gr. erfðalaga um efni umsóknar um leyfi til setu í óskiptu búi og um fylgigögn með henni. Breytingar þessar, sem skýra sig sjálfar, miða að lögfestingu framkvæmdarvenju í þessu sambandi.
4.     Ákvæði er að finna í 3. mgr. sem heimilar við tilteknar aðstæður skipun sérstakra lögráðamanna fyrir ófjárráða niðja skammlífara maka vegna umsóknar hins langlífara um leyfi til setu í óskiptu búi. Regla um sama efni í 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. erfðalaga er nokkuð víðtækari eftir orðanna hljóðan en hér er gert ráð fyrir. Umrætt ákvæði frumvarpsins er hins vegar fært til samræmis við reglur sem koma fram um þetta efni í skiptalögum og lögræðislögum, en þær gilda meðal annars við meðferð umsóknar um leyfi til setu í óskiptu búi.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. koma fram reglur sem ráðgert er að verði í 11. gr. erfðalaga ef frumvarpið verður að lögum. Reglur þessar kveða á um það hverjar eignir teljist til óskipts bús frá öndverðu og að hverju leyti eignir, sem langlífari maki eignast síðar, renni inn í óskipta búið. Ákvæði 6. gr. eru samhljóða núgildandi fyrirmælum í 10. gr. erfðalaga að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að tilkynningu þeirri, sem fjallað er um í 2. mgr., verði beint til sýslumanns í stað skiptaráðanda samkvæmt núgildandi lögum. Er sú breyting gerð
til samræmis við ákvæði frumvarps til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. er ákvæði sem gert er ráð fyrir að verði að 12. gr. erfðalaga ef frumvarpið nær fram að ganga. Hér er að finna reglur sem eru samhljóða fyrirmælum í 11. og 12. gr. erfðalaga um forræði maka, sem situr í óskiptu búi, á eignum þess og ábyrgð hans á skuldum skammlífari makans. Lagt er til að önnur núgildandi ákvæði í 11. og 12. gr. erfðalaga falli niður. Er þar annars vegar um að ræða 2. málsl. 11. gr., þar sem eingöngu er að finna tilvísun til 20. gr. laganna um heimildir langlífara makans til dánarráðstafana, en tilvísun þessa verður að telja óþarfa. Hins vegar er gert ráð fyrir að niður falli ákvæði í 2. málsl. 12. gr. um innköllun til skuldheimtumanna skammlífara maka sem mælt er fyrir um að fari eftir reglum skiptalaga. Umrædd fyrirmæli hafa enga sjálfstæða þýðingu.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. koma fram reglur, sem ætlað er að leysi af hólmi núgildandi ákvæði 14. gr. erfðalaga, en rétt er áður en lengra er haldið að benda á, að ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að breytingar verði gerðar á ákvæðum 13. gr. erfðalaga.
    Í núgildandi reglum 14. gr. erfðalaga eru niðjum skammlífara maka veittar tvenns konar heimildir til að krefjast skipta sér til handa eftir að langlífari maki hefur sest í óskipt bú. Fyrri málsgrein 14. gr. veitir niðjum, sem voru ófjárráða þegar seta hófst í óskiptu búi, heimild til skiptakröfu um leið og þeir öðlast fjárræði. Síðari málsgrein 14. gr. heimilar niðjum að öðru leyti að krefjast skipta sér til handa með eins árs fyrirvara. Reglur þessar eiga jafnt við sameiginlega niðja hjóna og stjúpniðja langlífara maka.
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum á reglum um réttindi og heimildir langlífara maka til að setjast í óskipt bú. Eins og áður hefur komið fram, er markmið þessara ákvæða að bæta stöðu langlífara maka í þessum efnum frá því sem nú er. Rýmri heimildir langlífara maka til að fá leyfi til setu í óskiptu búi þjóna tæpast tilgangi ef núgildandi heimildir niðja hins skammlífara til að krefjast arfshluta úr óskiptu búi skv. 14. gr. erfðalaga standa óbreyttar. Eru því gerðar tillögur í fyrirmælum 8. gr. frumvarpsins um þrengri heimildir niðja skammlífara maka til að krefjast skipta en nú gilda, en hér hefur verið sótt nokkur fyrirmynd til reglna
danskra erfðalaga um sama efni.
    Í 8. gr. frumvarpsins eru gerðar tillögur um talsverðar breytingar á núgildandi heimildum fyrri málsgreinar 14. gr. erfðalaga. Er þar nánar tiltekið gert ráð fyrir að stjúpniðjar langlífara maka, sem voru ófjárráða þegar leyfi var veitt til setu í óskiptu búi, geti einir krafist skipta sér til handa þegar þeir öðlast fjárræði ef heimild til leyfisveitingar hefur stuðst við hina breyttu reglu 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Þessi heimild nær því í fyrsta lagi eingöngu til stjúpniðja langlífara maka, en ekki til sameiginlegra niðja hans og hins skammlífara. Í öðru lagi skiptir máli í þessu sambandi með hverjum hætti langlífari maki hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi því regla þessi á aðeins við ef forsjármaður stjúpniðjans samþykkti setu í óskiptu búi eða ef langlífari makinn var forsjármaður hans, sbr. tilvísun til 1. mgr. 8. gr. Ef réttur langlífari makans til setu í óskiptu búi með ófjárráða stjúpniðjum sínum hefur þannig stuðst við ákvæði erfðaskrár hins skammlífara getur stjúpniðji ekki krafist skipta á grundvelli breyttrar reglu 1. mgr. 14. gr. þegar hann öðlast fjárræði. Að öðru leyti ber að vekja athygli á því að í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að umrædd heimild verði háð því skilyrði að stjúpniðji tilkynni langlífara maka um skiptakröfu sína innan þriggja mánaða frá því hann öðlast fjárræði. Tekið er þó fram að ef krafa kemur ekki fram innan umræddra tímamarka, geti stjúpniðjinn allt að einu krafist skipta síðar á grundvelli seinni málsgreinar 14. gr. Samsvarandi regla er ekki í núgildandi fyrirmælum 14. gr. erfðalaga, en með henni er stefnt að því að koma í veg fyrir óvissu um réttindi í þessu sambandi.
    Þá er í 8. gr. frumvarpsins tillaga um breytingu á núgildandi fyrirmælum 2. mgr. 14. gr. erfðalaga. Ákvæðið í núverandi mynd sinni veitir niðjum skammlífara maka, sem hafa samþykkt setu í óskiptu búi, almenna heimild til að krefjast skipta með eins árs fyrirvara. Lagt er til að heimild þessi verði þrengd með þeim hætti að hún taki aðeins til stjúpniðja langlífara maka, en ekki sameiginlegra niðja hjónanna eins og núgildandi regla. Þá felst einnig í umræddu ákvæði frumvarpsins að stjúpniðji geti ekki krafist skipta samkvæmt þessari heimild ef skammlífari makinn hefur mælt fyrir í erfðaskrá um rétt hins langlífara til setu í óskiptu búi.
    Rétt er að benda á að þótt lagt sé til að heimildir niðja skammlífara makans til að krefjast arfshluta úr óskiptu búi verði talsvert þrengdar með breytingum á 14. gr. erfðalaga er ekki hróflað við reglum 1. mgr. 15. gr. laganna sem veita niðjum rétt til búskipta vegna óeðlilegrar meðferðar langlífara maka á eignum bús eða hættu á henni.

Um 9. gr.


    Í ákvæði þessu er gert ráð fyrir þeirri breytingu á 1. mgr. 15. gr. erfðalaga að niður falli þau tilmæli að erfingi, sem krefst skipta samkvæmt þeirri reglu, þurfi að sanna tiltekin atvik „fyrir skiptaráðanda“. Brottfall þessara orða kemur ekki að sök varðandi efni reglunnar, en breyting þessi er komin til vegna ákvæða frumvarps til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. frumvarpsins koma fram fyrirmæli sem eiga að koma í stað núgildandi reglu 16. gr. erfðalaga. Í fyrri málsgrein ákvæðisins er mælt fyrir um áhrif þess að maður falli frá sem á arfsinnstæðu í óskiptu búi. Er gert ráð fyrir þeirri reglu að erfingjar hans geti aðeins haft uppi skiptakröfu á sama grundvelli og hinn látni hefði sjálfur getað ef hann væri enn á lífi. Er hér um talsverða einföldun að ræða á núgildandi reglum 1. og 2. mgr. 16. gr. erfðalaga, en sú skipan, sem hér er ráðgerð, er eðlileg í ljósi annarra fyrirmæla frumvarpsins um breyttar heimildir til setu í óskiptu búi.
    Í síðari málsgrein ákvæðisins er mælt fyrir um að skuldheimtumenn erfingja geti ekki krafist greiðslu arfsinnstæðu þeirra í óskiptu búi. Regla þessi er samhljóða núgildandi fyrirmælum 3. mgr. 16. gr. erfðalaga.

Um 11. gr.


    Með ákvæði þessu er tilvísun í 26. gr. erfðalaga til fyrirmæla í eldri lögum um stofnun og slit hjúskapar breytt til samræmis við núgildandi lög um þau efni.

Um 12. gr.


    Í 12. gr. frumvarpsins er ráðgerð breyting á fyrirmælum 31. gr. erfðalaga, sem taka til ákvörðunar á verðgildi fyrir fram greidds arfs, þegar tillit er tekið til hans við endanlegt uppgjör milli erfingja að arfleifanda látnum. Í núverandi mynd sinni kveður regla 31. gr. á um að eign sem erfingi hefur fengið fyrirfram að arfi skuli virða honum til frádráttar eftir gangverði hennar þegar afhending hennar átti sér stað. Vafi hefur verið um það hvort í uppgjörum sem þessum eigi að taka til tillit verðlagsbreytinga sem hafa átt sér stað frá afhendingu fyrir fram greidds arfs fram til endanlegs uppgjörs eftir lát arfleifanda, en ummæli 31. gr. taka ekki afdráttarlausa afstöðu til
þess. Svo dæmi sé tekið af þeirri aðstöðu, sem hér um ræðir, má benda á að ef einn margra erfingja hefur fengið eign fyrir fram að arfi áratug fyrir lát arfleifanda, gæti bókstafleg skýring fyrirmæla 31. gr. leitt til þeirrar niðurstöðu að eignin komi aðeins til frádráttar af endanlegum arfi hans með óbreyttri fjárhæð frá því sem taldist gangverð eignarinnar við afhendingu hennar. Er augljóst að slík niðurstaða getur leitt til óviðunandi ójafnaðar við uppgjör milli erfingja þegar verðlagsbreytingar hafa orðið jafn miklar og raun ber vitni á undanförnum árum.
    Með 12. gr. frumvarpsins er lagt til að tekin verði af tvímæli um það að framreikna beri verðmæti fyrir fram greidds arfs við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst. Í ákvæðinu er þó ekki mælt nánar fyrir um sjálfa reikniaðferðina sem beita ætti í þessu skyni, t.d. hvort þetta skuli gert eftir ákveðinni vísitölu eða öðrum verðlagsmæli. Stafar þetta af því að ekki er sjálfgefið að vísitölur sem nú eru við lýði, komi til með að gefa rétta mynd af breyttu verðlagi á ókomnum tíma. Auk þess gæti komið til álita að beita mismunandi vísitölum, eftir því um hverja eign er að ræða hverju sinni. Hér er gert ráð fyrir að ef ágreiningur rís milli erfingja um verðgildi fyrirframgreiðslu verði dómstólar að meta eftir atvikum hæfilega fjárhæð í þessu sambandi þannig að stuðlað verði að jafnræði milli erfingja.
    Að öðru leyti en nú hefur verið greint felur 12. gr. frumvarpsins í sér tillögu um nánari afmörkun á inntaki 31. gr. erfðalaga sem telja verður að skýri sig sjálf.

Um 13. gr.


    Hér er mælt fyrir um breytingu á 47. gr. erfðalaga sem á rætur að rekja til ákvæða frumvarps til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Um 14. gr.


    Með ákvæði þessu er tilvísun í 51. gr. erfðalaga til fyrirmæla í lögum um lögræði breytt til samræmis við ný lögræðislög.

Um 15. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Í 16. gr. er gert ráð fyrir nýju ákvæði erfðalaga, 63. gr. þeirra, þar sem mælt er fyrir um skil eldri laga og yngri. Auk þess koma þar fram
bráðabirgðaákvæði um hverjir gegni því hlutverki sem sýslumönnum er ætlað með breytingum samkvæmt frumvarpinu meðan lög nr. 74/1972 eru enn í gildi. Verður ekki séð að reglur þessar þarfnist sérstakra skýringa.